Af skjá í bók

Lestur af skjá > verkefni leyst með bók > sjálfstæður lestur í bók

EÐA

Lestur af skjá > sjálfstæður lestur í bók > verkefni leyst með bók

Skjálestur fyrst

Að hafa textann á skjá ásamt því að hafa hann í bók hefur margþættan tilgang fyrir nemendur og kennara. Það á að stuðla að því að bæta lesfimi 2 nemendanna, auðvelda kennslu ákveðinna atriða, undirbúa nemendur fyrir sjálfstæði í verkefnavinnu, höfða til margra sem eiga erfitt með lestur og gera lestur að félagslegri athöfn.

Nemandinn les sama textann við ólíkar aðstæður

Fjöldi rannsókna sýnir að lestur sama texta hvað eftir annað, fyrir einhvern sem hlustar og leiðbeinir, stuðlar almennt að lesfimi, þ.e. réttum og sjálfvirkum lestri.3 Reynsla höfundar er sú að sumum með lestrarerfiðleika leiðist að endurlesa sama textann við sömu eða svipaðar aðstæður eins og oft er farið fram á. Sá leiði getur yfirfærst á bækur og lestur almennt. Lestur sama texta við ólíkar aðstæður, fyrst á skjá og síðan í bók, ætti að skila liprari lestri í bókinni og því hugsanlega jákvæðara viðhorfi til hennar.

Drengir vilja frekar lesa af tölvuskjá en í bók 4

Um 23% drengja á unglingastigi eiga í erfiðleikum með lesskilning og er mikill munur á lesskilningi kynjanna, drengjum í óhag.5 Lestrarerfiðleikar hjá drengjum koma fram strax í 1. bekk þegar verið er að kenna börnum lestrartækni (umskráningu).6 Erfiðleikar með lestur draga því snemma úr áhuga á lestri bóka sem leiðir oft til þess að æfingin verður ónóg. Hugsanlegt er að glæða eða kveikja áhugann með lestri á tölvuskjá í því skyni að hann yfirfærist á bóklestur. Kennsluaðferðin Af Skjá í bók á að stuðla að því.

Kennarinn fangar athygli allra í einu

Með því að sýna hópi nemenda textann á skjá á kennari auðvelt með að beina athygli allra í einu að atriðum sem efla hljóðkerfis-­ og málvitund, lestrartækni, orðaforða og þar með lesskilning. Nemendur verða þannig sjálfstæðari við að leysa verkefni í vinnubókinni sem reyna á þessa þætti.

Kennarinn gefur nemendum fyrirmynd af áherslum og tjáningu textans

Auðvelt er að kenna þennan hluta lesfiminnar (sjá hér neðanmáls) svona: Nemendur horfa allir á skjáinn og hlusta á hvernig kennarinn les. Þeir reyna síðan að lesa textann eins og kennarinn gerði. (Bergmálslestur).

Nemandinn upplifir textann með samnemendum

Samskipti verða á milli barna þegar þau lesa saman af skjá. Umræður verða um orð og efni textans og skipst er á skoðunum. Lesturinn verður félagsleg athöfn.

Kynningarmyndbönd

Námsefnið Fjórir stafir í fókus var kynnt á haustsýningu Námsgagnastofnunar 2013 og hér má horfa á myndband um kennsluefnið.

Einnig má horfa á myndband um félagalestur á spjaldtölvu og hvernig hægt er að nýta hana við lestrarkennslu.

 


2. [Lesfimi er að geta lesið rétt og sjálfvirkt og eftir efninu, þ.e. með áherslum, blæbrigðum og tjáningu í samræmi við efnið.]
3. [http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S1877042813002541]
4. [http://www.dailymail.co.uk/news/article-2325378/Children-read-iPads-Kindles-weaker-literacy-skills-charity-warns.html]
5. [https://strakar.wordpress.com/2011/09/28/skyrsla-starfshops-um-straka-og-namsarangur/]
6. [http://eyjan.pressan.is/frettir/2011/09/29/fjordungur-drengja-getur-ekki-lesid-ser-til-gagns/]