Fimm vinir í blíðu og stríðu

Fimm vinir í blíðu og stríðu er lestrarkennsluefni fyrir byrjenda- og miðstig og nýtist í almennri kennslu og sérkennslu. Það nýtist einnig við kennslu einstaklinga með annað móðurmál en íslensku. Kennsluefnið er í  þremur hlutum: Saga í bók, skjáefni og verkefni í vinnubók.

Bækur í bókaflokknum eru:

Mikilvægt er að kynna sér markmið kennsluefnisins og hugmyndir um samspil skjáefnis, bókar og verkefna (sjá Kennsluaðferðir hér á eftir).

Panta bækur

Markmið

Markmiðið með efninu er að efla lesskilning á þann hátt að:

  • Orð og orðatiltæki í sögunni skiljist og þau geti orðið lesendum töm á tungu.
  • Lesendur skilji og geti lesið eftir efninu, í viðeigandi hendingum og hljómfalli.
  • Lesendur lesi nægilega hratt og lipurt til að skilja.
  • Lesendur átti sig á grunnatriðum í málfræði og stafsetningu.

Kennsluaðferðir

Af skjá í bók er kennsluaðferð sem Rannveig Lund hefur reynslu af og mælir með þegar þetta lestrarkennsluefni er notað.

Orð og orðatiltæki – hvernig kennd?

Skjáefni: Kennari spjallar við nemendur um orð og orðasambönd. Ræða á um orðin sem eru með grænu letri á glærunum, en þau eru uppistaðan í bókarkaflanum Með öðrum orðum. Einnig eru fáein orð á glærunum með rauðu letri. Þau gæti einnig þurft að ræða, þótt þau séu ekki í kaflanum Með öðrum orðum.

Bók: Í kaflanum Með öðrum orðum (bls. 44-52) eru orð og orðasambönd úr textanum útskýrð á einföldu máli. Nemendur fletta upp í þessum kafla þegar þeir leysa verkefni með sama heiti. Mörg orð og orðatiltæki koma oft fyrir í öllum hlutum efnisins. Merking margra þeirra er skýrð með myndum.

Lestur eftir efninu – hvernig kenndur?

Skjáefni: Lestur eftir efni má þjálfa með nokkrum aðferðum, s.s. bergmálslestri, kórlestri, skiptilestri og leiklestri. Því slakari sem nemendur eru í lestri, þeim mun oftar þarf að fara yfir textann með mismunandi aðferðum. Andlitsmyndir af sögupersónunum sem taka til máls eru vinstra megin á glærum. Myndirnar ýta við nemendum með að lesa eftir efninu þegar setning rennur inn á skjáinn við hliðina á viðkomandi mynd. Auk þess er bein ræða höfð með öðru letri en óbein. Glærurnar henta einnig vel fyrir paralestur af tölvuskjá eða spjaldtölvu þar sem annar félaginn sendir setningar inn á skjá fyrir hinn að lesa.

Leshraði - hvernig eykst hann?

Endurtekinn lestur sömu orða og efnis á skjá, bók og í verkefnavinnu, eykur líkur á að stafasambönd og orð verði kunnugleg. Einnig verður lesturinn liprari þegar nemandinn veit eða þykist vita hvað gerist næst.

Verkefni í vinnubók

Öllum köflum bókarinnar fylgja fjórir flokkar verkefna sem á vefnum heita Lesskilningur, Með öðrum orðum, Málfræði og Stafsetning. Kennari velur úr flokk eða flokka sem hann telur mikilvægast að nemendur þjálfi. Til að mæta mismunandi þörfum getur kennari einnig valið um þyngdarstig innan verkefnaflokkanna Lesskilningur og Með öðrum orðum.  Auðveldara verkefnið raðast á undan því erfiðara í pdf.-skjalinu með verkefnunum. Þegar nemendur vinna verkefnin gætu þeir þurft að fletta upp í bókinni til að finna svörin.

Lesskilningur
Lýsing: Myndir úr hverjum kafla og setningar sem eiga við myndirnar. Nemendur lesa setningarnar og para þrjár þeirra við hverja mynd. Nemendur fletta upp í bókinni þegar á þarf að halda.

Með öðrum orðum
Lýsing: Orð/orðatiltæki úr hverjum kafla parast við önnur orð eða orðalag sem fela í sér sömu merkingu. Nemendur fletta upp í  kaflanum Með öðrum orðum ef á þarf að halda.

Málfræði
Lýsing: Öllum köflunum tilheyra verkefni um nafnorð úr viðkomandi kafla.

Stafsetning
Lýsing: Öllum köflunum tilheyra verkefni með orðum sem hafa tvöfaldan samhljóða eða eru óhljóðrétt skrifuð og koma fyrir í viðkomandi bókarkafla. Í þessu verkefni er hugsanlegt að sumir nemendur þurfi að líta í bókina.

Panta bækur